Nýr póll í hæðina
Guðrún Jónsdóttir, sálfræðingur
Ráðgjöf og samtöl á netinu
Stundum líður okkur eins og við séum föst í sama farinu eða í einskonar vítahring sem við komumst ekki út úr og virðumst vera að glíma við sama vandamálið í mismunandi búningi. Kannski erum við orðin svo þreytt eða kulnuð að við virkum bara eins og á sjálfstýringu af gömlum vana.
En stundum gerast hlutirnir einfaldlega svo hratt að við náum ekki í skottið á okkur. Við ofkeyrum okkur á meðan við reynum ráða við allar þær áskoranir sem dynja á okkur. Okkur gefst ekki tími til að setjast niður og hugsa okkar mál og frestum því til morguns.
Eða við erum óánægð í samböndum okkar við maka eða annað fólk. Erum flækt í einhverjar deilur sem ræna okkur allri orku. Við erum orðin leið á þessu, erum reið eða sár, þjáumst kannski af kvíða, náum engri hvíld og vitum ekki hvað við eigum að gera við þetta allt.
Við gerum okkur grein fyrir því að þetta getur ekki haldið svona áfram. Við viljum breyta einhverju, en við vitum ekki hvar við eigum að byrja. Okkur skortir yfirsýn, sjáum ekki skóginn fyrir trjánum og tekst ekki að taka eða standa við neinar ákvarðanir. Það er eins og allt sem við vorum búin að læra hingað til virki ekki almennilega og við efumst stundum um eigið ágæti.
Hljómar þetta kunnuglega? Þá ertu komin/n á rétta staðinn.
Ef þig langar til að greiða úr persónulegum eða félagslegum vanda eða deilum, skilja betur samhengið og finna nýjar lausnir. Auka sjálftraustið og vaxa örlítið. Færa út þægindarrammann. Ef þig langar til að bæta samskiptin við maka eða annað fólk sem þér er annt um. Ef þú vilt finna meiri ánægju og gæði í lífinu. Ef þú þarft að taka ákvarðanir, vilt breyta einhverju í lífinu, uppgötva nýja möguleika, vinna úr atburðum úr fortíðinni eða finna lausn á tilvistarkreppunni.
Fyrir mig væri það ánægja og heiður að vera samferða þér spölkorn á þessari leið.
Hvernig vinn ég?
Mín nálgun kallast á ensku “systemic approach” (við getum kallað það hér kerfislæga nálgun). Í hennar anda mæti ég skjólstæðingum mínum ætíð á jafnréttisgrundvelli og með viðmóti sem einkennist af einlægum áhuga. Ég dæmi ekki og sting fólki ekki í kassa. Ég geng út frá því að hver og einn búi innra með sér yfir þeim krafti, getu og möguleikum sem þeir þurfa til að breyta sínum aðstæðum. Þó að þessir eiginleikar séu kannski í augnablikinu ekki aðgengilegir. Ég geng líka út frá því að það sem við upplifum - okkar raunveruleiki - sé útkoma okkar einstöku reynslu og túlkunum okkar á henni. Í gegnum virka hlustun og með opnum spurningum leitast ég við á skilja þennan einstaka “raunveruleika”. Ég er ekki sérfræðingur sem kemur með lausnir á vandamálunum. Hver og einn er sérfræðingurinn í sínu lífi. Mitt hlutverk er að leiða ferlið svo að viðkomandi einstaklingur geti fundið þá lausn sem hentar sér best og að gefa hvatningu og örvun. Oft nægja fáein viðtöl til að finna árangur og bæta líðan. Málið er að spyrja spurninga upp á nýtt og skoða nánar hvort hlutirnir séu ennþá eins og maður hélt að þeir væru. Finna út hvaða gömlu mynstur eru ennþá gagnleg og hver ekki. Að finna nýjan pól í hæðina og virkja nýjar orkulindir eða uppgötva gamlar upp á nýtt og bæta samskiptin við sjálfan sig og aðra. Til þess nota ég ýmsar aðferðir sem einkenna þessa nálgun.
Ráðgjöf á netinu
Sálfræðiráðgjöf þarf ekki að vera staðbundin. Ráðgjöf á netinu hefur ýmsa kosti. Hún er mun sveigjanlegri hvað varðar stað og tíma og er án langra biðlista. Maður kemst hjá því að ferðast langar vegalengdir sem sparar bæði tíma og fyrirhöfn sérstaklega ef maður er tímabundinn eða þarf að redda barnapössun. Ráðgjöf sem par eða fjölskylda er möguleg á netinu jafnvel þó að fólk sé ekki á sama staðnum. Það er hægt að nýta sér hana heima hjá sér í þægilegu og öruggu umhverfi eða hvar sem maður er staddur þá stundina. Allt sem maður þarf er netsamband.
Hver er ég?
Ég er fædd og uppalin á Íslandi, norður í Skagafirði, gekk í menntaskóla í Reykjavík og bjó þar þangað til ég flutti til Þýskalands 1990. Mér þykir vænt um uppvöxt minn og reynslu frá Íslandi og reyni alltaf að koma að minnsta kosti einu sinni á ári. Það hjálpar mér líka með að viðhalda húmornum og jarðtengingunni.
Ég nam sálfræði við háskóla í Berlín, bjó þar í þrjátíu ár, vann og ól upp dóttur mína. Ég hef gaman að því að ferðast og hef upplifað margt á ferðalögum mínum. Þessi reynsla úr mismunandi heimum hjálpar mér að setja aðstæður í nýtt samhengi og skoða hlutina frá ýmsum sjónarhornum.
Fyrir þremur árum ákvað ég að breyta rækilega til í lífi mínu og flutti úr borginni upp í sveit. Núna bý ég í litlum rólegum bæ nálægt Leipzig og vinn sjálfstætt á netinu. Fyrir utan vinnuna nýt ég þess að vera úti í náttúrunni, ganga eða hjóla eða bara slappa af niður við stöðuvatn í nágrenninu í góðu veðri og lesa bók. Ég tala íslensku, þýsku og ensku á hverjum degi og býð upp á ráðgjöf á þessum tungumálum. Ég þekki það vel af eigin reynslu hvernig það er að yfirgefa heimkynnin, byrja á einhverju nýju og aðlaga sig að öðruvísi umhverfi. Þess vegna langar mig sérstaklega að beina þjónustu minni til íslendinga erlendis.
Ég bý yfir meira en tuttugu ára starfsreynslu í ráðgjöf og þjónustu við fólk með geðraskanir. Ég hef einnig starfsleyfi sem sálfræðingur á Íslandi frá embætti landlæknis. Samhliða vinnu hef ég tekið þátt í fjölmörgum námskeiðum og þjálfunum, svo sem í sáttamiðlun, NLP Practitioner, í kerfislægri samtals- og fjölskyldumeðferð (systemic therapist/family therapist) og síðast bætti ég við mig þjálfun í kerfislægri ráðgjöf á netinu. Sem stendur starfa ég einnig á netsíðunni Instahelp.
Verð og valmöguleikar
Þinn ávinningur:
Stuttur biðlisti - möguleiki á að brúa biðtímann, ef verið er að bíða eftir öðru úrræði.
Sveigjanleiki hvað varðar að finna góðan tíma sem hentar.
Auðvelt að ná í mig á milli tíma.
Einstaklingsbundin samsetning hvað varðar gerð, fjölda og tíðni tíma eftir samkomulagi.
Engin greining eða framsal persónulegra upplýsinga.