Í fjarska innan seilingar - sálfræðiráðgjöf á netinu
Sálfræðiráðgjöf á netinu fer ekki einungis fram í gegnum myndspjall. Hún getur líka innihaldið viðtal án myndar eins og í síma svo og tölvupóst eða spjall (chat). Sem þýðir að hún getur líka farið fram skriflega. Það býður upp á ýmsa kosti. Að skrifa tölvupóst er svipað og að skrifa bréf. Maður getur lesið textann yfir aftur og leiðrétt eða umorðað áður en maður sendir hann. Maður getur líka lesið svarið mörgum sinnum og látið það virka á sig. Ef þér finnst gaman að skrifa og segja sögu, þá er þetta mjög skemmtileg og áhrifarík aðferð. Fyrir marga er það léttir að skrifa upp hugsanir sínar og tilfinningar. Þegar maður setur þær í orð og á pappír (eða tölvuskjá) fá þær á sig skýrari mynd, sem auðveldar að virða þær fyrir sér úr fjarlægð. Það getur líka verið hjálplegt að blanda samskiptaformunum (svokallað blended counseling) og skipta um form þar sem það hentar. Valið fer líka eftir smekk og tæknilegum forsendum. Öll ráðgjöf á netinu fer fram í gegnum hugbúnað sem uppfyllir persónuverndarskilyrði. Við mælum okkur mót á ákveðnum tíma og ég sendi hlekk. Tölvupósti svara ég innan tveggja til þriggja daga.
Þjónusta mín einskorðast við ráðgjöf (counseling). Hér er því ekki um heilbrigðisþjónustu eða sálfræðimeðferð með tilheyrandi greiningum og sjúkraskrám að ræða. Þar af leiðandi hentar hún ekki í neyðartilfellum. Sérstaklega í tilfellum þar sem um er að ræða geðrof eða sjálfvígshættu er mikilvægt að hafa samband við neyðarþjónustu og/eða geðdeild á svæðinu.